Fer á milli Grímsness og Kópavogs á æfingar

Díana Kristín Sigmarsdóttir.
Díana Kristín Sigmarsdóttir. mbl.is/Hari

„Það var alveg frábært hversu vel við náðum að leika saman og halda okkur við leikskipulagið frá upphafi leiks og allt til loka,“ sagði Díana Kristín Sigmarsdóttir, handknattleikskona úr HK en hún og stöllur hennar unnu Hauka, 26:22, í 18. umferð Olís-deildar í Digranesi í fyrrakvöld.

Með sigrinum efldust nokkuð vonir HK-liðsins í kapphlaupinu við Stjörnuna um sjötta sæti deildarinnar og að komast þar með hjá umspilsleikjum um áframhaldandi keppnisrétt í Olís-deildinni á næsta keppnistímabili.

HK situr um þessar mundir í sjöunda og næst neðsta sæti með níu stig en Stjarnan er í sjötta sæti með tveimur stigum meira. Liðin leiða saman hesta sína í næstu umferð á laugardaginn í TM-höll Garðbæinga. Díana Kristín segir eftirvæntingu ríkja fyrir leiknum. „Eins og venjulega þá er næsti leikur sá mikilvægasti. Við höfum fulla trú á að geta unnið Stjörnuna eins og önnur lið í deildinni. Annað kemur ekki til greina hjá okkur.“

Díana segir leikinn við Hauka í fyrrakvöld hafa verið skemmtilegan. „Þetta var hörkuleikur við Haukana. Við vorum marki undir að loknum fyrri hálfleik en létum það ekki slá okkur út af laginu heldur héldum við okkar striki allt til leiksloka. Það skilaði okkur þessum kærkomna sigri,“ sagði Díana Kristin sem eins og stundum áður var markahæsti leikmaður HK-liðsins í leiknum. Hún skoraði 10 mörk og er sjötta markahæsta kona deildarinnar með 96 mörk eins sjá má hér til hliðar.

Sextán stiga munur var á Haukum og HK fyrir leikinn í fyrrakvöld en Haukar voru og eru enn í þriðja sæti. Staðan í deildinni segir ekki alla söguna að sögn Díönu Kristínar. „Það hefur sýnt sig í vetur að deildin er afar jöfn og liðin geta vel unnið hvert annað. Við höfum haldið okkar striki þótt að úrslit margra leikja hafi ekki verið eins góð og við hefðum viljað.

Ég kann mjög vel við mig hjá HK þar sem mér hefur gengið vel. Það er ekki síst að þakka góðum hóp og samherjum sem hafa til að mynda verið duglegir að leika mig uppi,“ sagði Díana Kristín sem gekk til liðs við HK í sumar sem leið eftir að hafa verið hjá Förde á vesturströnd Noregs seinni hluta síðasta vetrar og fram á vormánuði.

Sjá allt viðtalið við Díönu og úrvalslið 18. umferðar í Olís-deild kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert