Ætlum að rífa okkur upp á rassgatinu

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. Þorgeir Bjarki Davíðsson (4).
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. Þorgeir Bjarki Davíðsson (4). mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stjörnuliðið var gott. Það neyddi okkur í að tapa boltanum að minnsta kosti fjórtán sinnum,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari karlaliðs Fram í handknattleik, eftir fimm marka tap fyrir Stjörnunni á heimavelli í kvöld í 18. umferð Olís-deildar karla í handknattleik. Tapið kom í veg fyrir að Fram færðist nær liðunum sem berjast um síðustu sætin í úrslitakeppninni.

„Bubbi var einnig góður í markinu hjá Stjörnunni,“ bætti Guðmundur Helgi við og viðurkenndi að einbeitingaskortur hafi hrjáð leikmenn Fram sem á tíðum voru mislagðar hendur í sóknarleiknum.

„Stjörnumenn voru klárari í leikinn en við. Því miður þá skiluðu of margir af lykilmönnum ekki sínu framlagi að þessu sinni. Það munar mikið um það. Ég tek hins vegar ekki af Stjörnuliðinu að það lék frábæra vörn, hafði framúrskarandi markvörslu og tókst að refsa okkur með hraðaupphlaupum. Það var stemningsleysi í mínum mönnum. Einhvern hluta þess verð ég að taka á mig,“ sagði Guðmundur Helgi og bæti við að erfitt verkefni sé fram undan við að ná markmiðinu sem er sæti í úrslitakeppninni. Sem stendur er Fram í 10. sæti og tveimur stigum frá næsta liði fyrir ofan, KA. Um leið er Fram aðeins einu stigi frá fallsæti eftir sigur Akureyrar á Gróttu í dag.

„Við erum komnir í fallbaráttu á nýjan leik. Mikil spenna ríkir hvar sem lítið er á stöðuna í deildinni. Við ætlum að rífa okkur upp á rassgatinu á loksprettinum,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert