Dýrmætur sigur hjá Akureyri

Jóhann Geir Sævarsson átti góðan leik fyrir Akureyringa og skoraði …
Jóhann Geir Sævarsson átti góðan leik fyrir Akureyringa og skoraði fimm mörk gegn Gróttu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Botnliðin tvö í Olís-deild karla í handbolta, Akureyri og Grótta, spiluðu í dag mikinn baráttuleik á Akureyri. Liðin voru bæði með átta stig fyrir leik, þremur stigum á eftir Fram og fimm stigum á eftir KA og Stjörnunni. Sigur var því bráðnauðsynlegur báðum liðum.

Gróttumenn virtust ekki alveg meðvitaðir um nauðsyn þess að ná sér í stig og spiluðu þeir megnið af fyrri hálfleiknum mjög illa. Akureyri var í bílstjórasætinu og byggði snemma upp gott forskot, komst í 8:2 eftir fjórtán mínútur. Sókn Gróttu var sérlega slöpp og menn gerðu sig seka um að klúðra nokkrum dauðafærum. Akureyri var mest sjö mörkum yfir í hálfleiknum, 13:6, en staðan var 16:10 í hálfleik.

Arnar Þór Fylkisson var kominn með 11 varin skot í hálfleik og var búinn að verja tvö vítaskot.

Grótta skipti um ham í hálfleik og hefur Einar Jónsson eflaust gefið sínum mönnum góðan blástur. Áður en varði var munurinn orðinn eitt mark en þannig hélst hann lengstum og Akureyri hékk á forskoti sínu eins og hundur á roði. Fór svo að lokum að heimamenn fögnuðu 25:23-sigri.

Grótta er í djúpum skít á botninum og hefur fjóra leiki til að bjarga sér frá falli. Akureyri er í aðeins skárri stöðu en liðið þarf á fleiri stigum að halda til að koma sér ofar.

Akureyri 25:23 Grótta opna loka
60. mín. Patrekur Stefánsson (Akureyri) skoraði mark Búið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert