Fyrsti sigur ársins hjá Stjörnunni

Egill Magnússon sækir að varnarmönnum Fram í fyrri leik liðanna …
Egill Magnússon sækir að varnarmönnum Fram í fyrri leik liðanna í Garðabænum í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjarnan vann sinn fyrsta leik á þessu ári í Olís-deild karla í handknattleik þegar þeir lögðu Framara, 29:24, í Framhúsinu í 18. umferð deildarinnar. Stjarnan er þar með komin upp fyrir ÍR í sjöunda sæti deildarinnar með 15 stig. Fram er enn í þriðja neðsta sæti með 11 stig, stigi á undan Akureyri handboltafélagi.

Stjarnan byrjaði leikinn af miklum krafti, jafnt í vörn sem sókn, og náði fimm marka forskoti, 6:2, eftir liðlega tíu mínútna leik. Sveinbjörn Pétursson varði allt hvað af tók og Aron Dagur Pálsson fór á kostum í sóknarleiknum og skoraði að vild. Framarar lögðu ekki árar í bát heldur komu til baka, ekki síst á kafla þar sem þeir voru tveimur fleiri. Fram lánaðist að minnka muninn í eitt mark, 6:5, og aftur 7:6 á átjándu mínútu. Þá gafst liðinu kostur á að jafna metin en allt kom fyrir ekki.

Stjarnan gaf í á ný og náði þriggja til fjögurra marka forskoti sem liðið hélt alveg til loka hálfleiksins. Litlu mátti muna að munurinn yrði fimm mörk að loknum fyrri hálfleik, 15:10. Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður Fram kom í veg fyrir það með því að verja vítakast frá Ara Magnúsi Þorgeirssyni á síðustu andartökum hálfleiksins. Stjarnan fór með fjögurra marka forskot inn í hálfleikinn, 14:10. Sóknarleikur Fram var slakur í fyrri hálfleik. Sendingar samherja á milli fóru á tíðum forgörðum auk þess sem leikmenn völdu oft ekki góða kosti til markskota með þeim afleiðingum að Sveinbjörn átti auðvelt með að verja í marki Stjörnunnar.

Viktor Gísli varði einnig afar vel í marki Fram í fyrri hálfleik, alls 10 skot. Hann réð þó ekki við Aron Dag Stjörnumann sem skoraði átta mörk úr níu skotum.

Fram-liðinu tókst aldrei að ná sér á strik í seinni hálfleik. Sóknarleikur liðsins var mistækur og slakur sem fyrr auk þess sem Sveinbjörn hélt uppteknum hætti í marki Stjörnunnar.

Stjarnan hélt öruggu forskoti allt til leiksloka og vann sannfærandi sigur með fimm marka mun.

Andri Þór Helgason og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Fram og voru markahæstir. Aron Dagur Pálsson var atkvæðamestur leikmanna í Stjörnunni við að skora. Hann skoraði níu mörk, þar af átta í fyrri hálfleik. Egill Magnússon var næstur með sex mörk.

Fram 24:29 Stjarnan opna loka
60. mín. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson (Fram) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert