Stóðumst áhlaup Fram-liðsins

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, viðurkenndi að fargi væri af sér létt eftir sigurinn á Fram, 29:24, í Olís-deild karla í handknattleik í Fram-húsinu í kvöld. Um var að ræða fyrsta sigur Stjörnunnar á árinu en með honum færðist liðið upp í sjöunda sætið með 15 stig.

„Það er ekkert komið hjá okkur þrátt fyrir þennan sigur. Enn er mikið eftir af deildarkeppninni og við verðum að leika betur en við gerðum að þessu sinni ef við komumst í úrslitakeppnina,“ sagði Rúnar i samtali við mbl.is.

„Okkur tókst að standast öll áhlaup Fram-liðsins í leiknum sem var jákvætt en við gerðum hins vegar mistök á köflum sem hafa oft og tíðum brotið okkur niður í leikjum en gerðu það ekki að þessu sinni. Við stjórnuðum leiknum þótt hraðinn í leik okkar hafi mátt vera meiri. Við vorum með tvenns konar varnarafbrigði sem gengu vel þar til í lokin. Undir lokin fórum við í sjö á sex í sókninni og það skilað mörkum þótt leikurinn hefði mátt á tíðum vera markvissari.

Það var margt gott í leik okkar en því miður þá sást í lokin að það var stutt í vandamálin hjá okkur og sumt af þeim sér maður bara í bíómyndum,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert