„Ég var órólegur allan tímann“

Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni í KA-heimilinu í kvöld.
Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni í KA-heimilinu í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

KA og Selfoss áttust við í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Patrekur Jóhannesson, goðsögn meðal KA-manna, var mættur með Selfyssinga í KA-heimilið til að sækja tvö stig. Tókst það í nokkuð kaflaskiptum leik sem Selfoss vann 29:27.

Selfyssingar voru með öll völd í fyrri hálfleik og spiluðu mjög vel. Þeir leiddu 16:10 í hálfleik en KA náði góðum áhlaupum í seinni hálfleik sem Selfyssingar að lokum stóðu af sér.

„Það var fyrri hálfleikurinn hjá okkur sem lagði grunninn að þessum sigri. Svo var smá basl á okkur í seinni hálfleik eins og stundum gerist en KA var ekkert að fara að gefa neitt. Ég er hrikalega ánægður með spilamennskuna en við vorum búnir að undirbúa liðið vel. Við berum mikla virðingu fyrir KA. Þeir eru seigir og gerðu jafntefli við okkur í fyrri leiknum á okkar heimavelli. Þeir eru klókir og geta bryddað upp á ýmsu,“ sagði Patrekur við mbl.is.

„Sóknarleikur okkar í fyrri hálfleik var bara stórkostlegur. Aginn og skipulagið skiluðu góðri sóknarnýtingu. Vörnin okkar gaf svo nokkur þægileg mörk. Ég held að við höfum komist í 20:13 í seinni hálfleik en þá var þetta langt frá því að vera búið. KA-liðið gefst bara aldrei upp og því var ég órólegur allan tímann. Ég er bara ánægður með að hafa unnið og að við séum enn í toppslagnum. Nú getum við farið að spá í næsta leik sem er einmitt heimaleikur gegn Haukum. “

Hvernig var að ganga inn í salinn og sjá risastóra mynd af sjálfum sér hangandi uppi á vegg í salnum?

„Mér þykir bara vænt um það. Ég var í liði KA þegar það vann sinn fyrsta titil í bikarleik gegn Val. Það var leikur sem maður gleymir aldrei. Þetta voru æðisleg ár og ég er mikill KA-maður þótt ég hafi ekki verið það meðan á leik stóð í kvöld. Maður finnur bara móttökurnar hérna og þá hlýnar mér um hjartarætur. Það er rosalega dýrmætt að hitta aftur allt þetta fólk og gaman að hugsa til baka,“ sagði Patti hálfklökkur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert