Sætur sigur ÍBV á Hlíðarenda

Valsarinn Ýmir Örn Gíslason í baráttu á línunni gegn ÍBV …
Valsarinn Ýmir Örn Gíslason í baráttu á línunni gegn ÍBV í kvöld. mbl.is/Hari

Íslandsmeistarar ÍBV komu, sáu og sigruðu þegar þeir sóttu Valsmenn heim í lokaleik 18. umferðar í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld.

Baráttuglaðir og flottir Eyjamenn hrósuðu þriggja marka sigri 32:29 eftir að hafa forystuna lengst af leiksins.

Eyjamenn léku fyrri hálfleikinn af miklum krafti og sérstaklega gekk sóknarleikurinn vel gegn sofandi Valsvörninni. ÍBV náði mest fimm marka forskoti í hálfleiknum en Valsmenn áttu góðan kafla og jöfnuðu metin í 12:12 en þá settu Eyjamenn í gírinn, náðu 5:1 kafla og voru fjórum yfir í hálfleik 17:13.

Valsmenn hófu seinni hálfleikinn með látum og þeir voru fljótir að jafna metin og komast marki yfir en Eyjamenn náðu vopnum sínum á ný. Þeir léku af krafti gegn hálfráðalausum Valsmönnum sem eru í krísu þessa dagana.

Liðsheildin var góð hjá Eyjamönnum með Kristján Örn Kristjánsson og Kára Kristján Kristjánsson fremsta á meðal jafningja en Eyjaliðið hefur heldur betur sótt í sig veðrið eftir áramótin.

Magnús Óli Magnússon var eins og oft áður besti maður Vals og var eiginlega sá eini sem lék af eðlilegri getu. Varnarleikur Vals var lélegur og markvarslan var eftir því og margir lykilmenn Hlíðarendaliðsins voru langt frá sínu besta.

Eyjamenn komust með sigrinum upp að hlið Aftureldingar í 5. sæti deildarinnar en Valsmenn eru áfram í þriðja sætinu, eru fjórum stigum á eftir toppliði Hauka og þremur stigum á eftir Selfyssingum þegar fjórum umferðum er ólokið.

Valur 29:32 ÍBV opna loka
60. mín. Daníel Freyr Andrésson (Valur) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert