Þurfum að vinna okkur upp úr þessari holu

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Það er þungt yfir karlaliði Vals í handknattleik um þessar mundir en þetta vel mannaða lið mátti sætta sig við tap á heimavelli gegn ÍBV í Olís-deild karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

Snorri Steinn Guðjónsson, annar af þjálfum Valsmanna, var þungur á brún þegar mbl.is náði tali af honum eftir að hann var búinn að messa yfir sínum mönnum inni í búningsklefanum.

„Við erum bara ekki nógu góðir og við vorum að elta spræka Eyjamenn allan tímann. Við vorum ólíkir sjálfum okkur og okkar aðall sem er öflugur varnarleikur var ekki til staðar í kvöld. Mér er til efs að við höfum fengið svona mörg mörk á okkur í vetur og að skora 29 mörk á að duga til að vinna leiki,“ sagði Snorri Steinn.

„Frá bikarsigrinum á móti Selfyssingum höfum við slakað á klónni. Við höfum ekki haldið einbeitingu og við megum ekkert við því. Við vitum að getan er til staðar að gera betur en þetta og nú er ekkert sem heitir að við verðum að rífa okkur upp. Við þurfum að vinna okkur upp úr þessari holu sem við erum komnir í. ÍBV-liðið spilaði virkilega vel og það fann veikleika í okkar varnarleik sem við þurfum að fara vel yfir,“ sagði Snorri Steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert