Vorum bara helvíti góðir

Fannar Þór Friðgeirsson í leik með Eyjamönnum.
Fannar Þór Friðgeirsson í leik með Eyjamönnum. mbl.is/Hari

„Við unnum þennan leik mjög verðskuldað,“ sagði Fannar Þór Friðgeirsson, leikmaður ÍBV, við mbl.is eftir sigur Eyjamanna gegn Valsmönnum í lokaleik 18. umferðar í Olís-deild karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Við vorum bara helvíti góðir og líklega var þetta einn af betri leikjum okkar á tímabilinu. Það er mikill stígandi í okkar leik og stemningin í liðinu er frábær. Við erum búnir að vera á mjög góðu róli frá því í desember og erum hægt og bítandi að klifra upp töfluna,“ sagði Fannar Þór, sem átti mjög góðan leik sem og flestir í liði ÍBV í kvöld.

„Það kom smá dapur kafli hjá okkur í byrjun seinni hálfleiksins en við héldum ró okkar og náðum góðum tökum á leiknum á nýjan leik. Við eigum enn helling inni. Það eru fá lið sem gætu spilað án Sigurbergs og Theodórs sem við eigum inni. Þeir koma vonandi fljótlega inn í liðið en Grétar Þór spilar ekkert meira á tímabilinu. Með endurkomu Sigurbergs og Theodórs verðum við bara enn þá sterkari þegar að úrslitakeppninni kemur,“ sagði Fannar Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert