Mikilvægur sigur hjá HK

Blær Hinriksson var markahæstur HK-inga gegn Víkingi.
Blær Hinriksson var markahæstur HK-inga gegn Víkingi. mbl.is/Árni Sæberg

HK sigraði Víking, 28:27, í 1. deild karla í handknattleik, Grill 66-deildinni, í gærkvöld og náði þar í dýrmæt stig í baráttunni um sæti í úrvalsdeildinni.

Ljóst er að Þróttur, HK og Víkingur fara í umspil um hvert þeirra fylgir Fjölni upp. Það þessara þriggja sem verður efst kemst beint í úrslit en hin tvö fara í undanúrslit í umspilinu.

Þróttur er með 20 stig, HK 18 og Víkingur 17 þegar tveimur umferðum er ólokið þannig að staðan er galopin enn þá. Fjölnir er með 27 stig á toppnum, ungmennalið Hauka er með 22 stig í öðru sæti og ungmennalið Vals 19 stig í fjórða sæti en tvö síðarnefndu liðin geta ekki unnið sér úrvalsdeildarsæti.

HK var yfir í hálfleik, 16:14. Blær Hinriksson skoraði 7 mörk fyrir HK og Bjarki Finnbogason 6. Hjá Víkingi voru markahæstir þeir Kristófer Andri Daðason og Hjalti Már Hjaltason með 6 mörk hvor.

Þróttur vann stórsigur á ungmennaliði FH, 38:25. Jón Hjálmarsson skoraði 11 mörk fyrir Þrótt og Aron Valur Jóhannsson 7 en Einar Örn Sindrason var markahæstur FH-inga með 9 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert