KA-menn sóttu suður tvö mikilvæg stig

Áki Egilsnes sækir að varnarmönnum Aftureldingar í fyrri leik liðanna …
Áki Egilsnes sækir að varnarmönnum Aftureldingar í fyrri leik liðanna á Akureyri í vetur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA vann sanngjarnan fjögurra marka sigur á Aftureldingu að Varmá í kvöld í 19. umferð Olís-deildar karla í handknattleik, 26:22. Þar með lyfti KA sér upp að hlið Stjörnunnar, að minnsta kosti í bili, í sjöunda sæti með 15 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Afturelding er hins vegar í sjötta sæti með 19 stig og virðist vera að missa af möguleikanum á fimmta sæti deildarinnar. 

KA var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Afturelding jafnaði metin aðeins tvisvar sinnum, 1:1, og 11:11. Norðanmenn voru marki yfir í hálfleik, 12:11. 

KA-liðið byrjaði leikinn af krafti og skoraði fimm af fyrstu sex mörkum leiksins. Mosfellingum virtist fyrirmunað að skora framan af leik. Jovan Kukobat, markvörður KA, kunni vel við sig á fjölum Varmár og varði allt hvað af tók og Tarik Kasumovic skoraði hvert markið á fætur öðru hinum megin vallarins.

Leikmönnum Aftureldingar gekk erfiðlega að koma sér inn í leikinn. KA var lengi vel með tveggja til fjögurra marka forskot. Auk Kasumovic náði Áki Egilsnes einnig að gera usla meðal Mosfellinga og skora hvert markið á fætur öðru. KA var fjórum mörkum yfir, 11:7, þegar rúmar sjö mínútur voru til hálfleiks. Þá kom góður kafli hjá Aftureldingu með fjórum mörkum í röð áður Kasumovic skoraði 12. mark KA rétt áður en leiktíminn í fyrri hálfleik rann út.

Stemningin var áfram KA-megin í síðari hálfleik. Mosfellingum gekk erfiðlega í sókninni. KA náði snemma sex marka forskoti, 19:13, og aftur 21:15. Kasumovic og Áki Egilsnes fóru á kostum í sóknarleik KA. Fór svo að Áki skoraði 11 mörk og Kasumovic 10.

Afturelding náði áhlaupi þegar leið á leikinn og minnkaði muninn í tvö mörk, 22:20, eftir að hafa farið í sjö manna sóknarleik. Nær komust þeir ekki. KA-menn voru alltaf skrefinu á undan og rúmlega það.

Finnur Ingi Stefánsson var markahæstur hjá Aftureldingu með sjö mörk. Tumi Steinn Rúnarsson var næstur með fjögur mörk.

Sem fyrr segir skoruðu Egilsnes og Kasumovic 11 og 10 mörk fyrir KA. Markvörðurinn Jovan Kukobat kom þar á eftir með tvö mörk. Hann varði einnig 14 skot.

Afturelding 22:26 KA opna loka
60. mín. Jovan Kukobat (KA) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert