Davíð til liðs við HK

Davíð Hlíðdal Svansson.
Davíð Hlíðdal Svansson. Ljósmynd/HK

Handknattleiksmarkvörðurinn reyndi Davíð Hlíðdal Svansson er genginn til liðs við HK og hefur samið við Kópavogsfélagið til tveggja ára.

Davíð er 33 ára gamall og hefur lengst af leikið með Aftureldingu en hefur að undanförnu dvalið við nám í Noregi. Hann verður bæði leikmaður meistaraflokks karla hjá HK og sér um markvarðaþjálfun í félaginu. Í þjálfuninni tekur hann við af Guðmundi Hrafnkelssyni fyrrverandi landsliðsmarkverði sem hefur þjálfað markverði HK undanfarin ár.

HK er í harðri baráttu í 1. deild karla, Grill 66-deildinni, og er á leið í umspil um sæti í úrvalsdeildinni þar sem liðið berst við Þrótt og Víking um eitt sæti í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert