Stefán skoraði tvö í mikilvægum sigri

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk fyrir Pick Szeged í ...
Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk fyrir Pick Szeged í dag. mbl.is/Hari

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk fyrir lið sitt Pick Szeged þegar liðið mætti Wisla Plock í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handknattleik í Póllandi í dag en leiknum lauk með 22:20-sigri Pick Szeged.

Heimamenn í Wisla Plock byrjuðu leikinn betur og náðu fjögurra marka forskoti þegar fimmtán mínútur voru búnar af leiknum, 7:3. Þá vöknuðu leikmenn Pick Szeged og þeim tókst að jafna metin í 10:10 og þannig var staðan í hálfleik.

Wisla Plock byrjaði seinni hálfleikinn betur og leiddi með þremur mörkum þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Þá kom frábæra leikkafli hjá ungverska liðinu sem fagnaði að lokum tveggja marka sigri.

Seinni leikur liðanna fer fram eftir viku í Ungverjalandi og hefst leikurinn klukkan 15 að íslenskum tíma.

mbl.is