Við vorum arfalélegir

Einar Andri Einarsson ræðir við leikmenn Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson ræðir við leikmenn Aftureldingar. mbl.is/Hari

Hljóðið var fremur dauft í Einari Andra Einarssyni þjálfara Aftureldingar eftir tap liðs hans fyrir KA á heimavelli í kvöld í Olís-deildinni í handknattleik, 26:22. Aftureldingarliðið átti undir högg að sækja allan leikinn að Varmá í kvöld og tókst aðeins tvisvar sinnum að jafna metin, 1:1, og 11:11. Með tapinu dró nokkuð úr möguleikum Aftureldingar á að ná fimmta sæti deildarinnar. Afturelding er tveimur stigum á eftir ÍBV sem er í fimmta sæti auk þess sem ÍBV stendur betur að vígi í innbyrðis leikjum liðanna.

„Við vorum arfalélegir að þessu sinni. Sama hvert var litið, vörn, sókn, hraðaupphlaup. Á öllum sviðum leiksins vorum við lakara liðið,“ sagði Einar Andri við mbl.is. „Upphafsmínúturnar gáfu tóninn þar sem við fórum illa með mörg opin færi og gáfum þar með KA-liðinu trú á að þeir gætu unnið okkur, nokkuð sem við höfðum sérstaklega varað menn við áður en flautað var til leiks.

Eftir góðan varnarleik gegn FH í síðustu umferð var varnarleikur okkar slakur í kvöld sem gerði meðal annars að verkum að Tarik Kasumovic og Áki Egilsnes fengu að skjóta á markið að vild,“ sagði Einar Andri en leikmennirnir tveir sem áður er getið um í KA-liðinu skoruðu samtals 21 mark að þessu sinni.

„Mér fannst við ekki vera klárir í slaginn að þessu sinni eins og sýndi sig á upphafsmínútum leiksins. Sama gerðist í byrjun síðari hálfleiks þegar við lentum fljótlega sex mörkum undir. KA-menn voru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni á sama tíma og við vorum værukærir,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert