Eftirmaður Kristjáns fundinn

Kristján Andrésson.
Kristján Andrésson. AFP

Norðmaðurinn Glenn Solberg mun taka við þjálfun sænska karlalandsliðsins í handknattleik af Kristjáni Andréssyni eftir Evrópumótið á næsta ári.

Sænska handknattleikssambandið greindi frá þessu í dag og gildir samningur Solbergs fram yfir Ólympíuleikana árið 2024.

Solberg er 47 ára gamall og lék 122 leiki með norska landsliðinu. Hann hóf sinn feril sem leikmaður með Drammen og þá lék hann með þýsku liðunum Nordhorn og Flensburg og spænska liðinu Barcelona.

Solberg var aðstoðarþjálfari norska karlalandsliðsins frá 2014-16 og hefur síðustu árin þjálfað norska liðið Hallvard, sem nýlega tryggði sér sæti í norsku úrvalsdeildinni.

Kristján hefur þjálfað sænska landsliðið frá árinu 2016 og hefur náð virkilega góðum árangri með það. Undir hans stjórn urðu Svíar í öðru sæti á EM í Króatíu í fyrra og á HM í janúar höfnuðu Svíar í fimmta sæti.

Kristján tekur við þjálfun þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen í sumar.

mbl.is