Mergjaður endasprettur Akureyringa

Akureyringar fagna mikilvægum sigri.
Akureyringar fagna mikilvægum sigri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Akureyri handboltafélag er langt frá því að vera fallið úr Olís-deild karla í handbolta. Liðið spilaði gegn Stjörnunni á Akureyri í dag og þurfti sárlega sigur. Þegar tíu mínútur voru eftir leit ekki út fyrir að Akureyri næði neinu út úr leiknum en góður endasprettur, þar sem heimamenn skoruðu sjö mörk gegn tveimur, tryggði dýsætan sigur, 27:25.

Akureyringar eru nú stigi á eftir Fram og verða að vinna einn leik í viðbót (eða tvo) og treysta á að Fram tapi sínum leikjum. KA og ÍR, eru tölfræðilega enn í fallhættu og  verða að ná sér í fleiri stig til að gulltryggja sæti sitt.

Akureyri hafði frumkvæðið í leiknum allan fyrri hálfleikinn en Stjarnan komst þó yfir í eitt skipti. Arnar Þór Fylkisson gaf tóninn fyrir heimamenn með því að verja vel í byrjun leiks. Akureyri var með ágætis tök á leiknum vel fram yfir miðjan hálfleikinn. Þá fór Sveinbjörn Pétursson að verja vel í marki Stjörnunnar og fjögur mörk Garðbæinga í röð breyttu stöðunni úr 11:8 í 11:12. Heimamenn tóku á sig rögg og löguðu sinn leik fyrir hálfleik og þeir voru yfir 14:13 þegar seinni hálfleikur hófst.

Stjarnan snéri leiknum sér í vil í seinni hálfleik og munaði þar mest um frábæra innkomu Sigurðar Ingibergs Ólafssonar í mark þeirra. Gestirnir leiddu með þremur mörkum þegar tíu mínútur voru eftir. Þá tók Geir Sveinsson leikhlé og það virkaði sem vítamínsprauta á heimamenn. Þeir jöfnuðu um hæl, komust svo yfir og múruðu bara upp í markið sitt. Stjörnumenn voru eins og byrjendur, vissu varla hvað snéri fram og hvað aftur. Hrun þeirra var þvílíkt. Akureyri fagnaði vel og innilega en tap í þessum leik hefði nánast innsiglað fall þeirra úr efstu deild.

Akureyri 27:25 Stjarnan opna loka
60. mín. Marius Aleksejev (Akureyri) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert