Akureyri og Fram berjast um að forðast fall

Geir Sveinsson þjálfari Akureyrar.
Geir Sveinsson þjálfari Akureyrar. mbl.is/Hari

Akureyri og Fram berjast um að forðast fall úr Olís-deild karla í handknattleik en bæði lið töpuðu leikjum sínum í næstsíðustu umferð deildarinnar í kvöld og eiga ekki lengur möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

Eftir fjóra leiki án sigurs fögnuðu FH-ingar öruggum sigri gegn Akureyri í Kaplakrika 29:20 eftir að Akureyringar höfðu haft eins marks forystu í hálfleik 13:12. Akureyringar halda enn í vonina um að halda sæti sínu í deildinni en þeir þurfa að vinna ÍR í lokaumferðinni og treysta á að Fram tapi fyrir ÍBV. FH tryggði sér hins vegar fjórða sætið með sigrinum í kvöld. Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur í liði FH með 6 mörk og Ásbjörn Friðriksson skoraði 5. Hafþór Vignisson skoraði 6 mörk fyrir Akureyri og Patrekur Stefánsson 6.

Möguleikar Fram á að komast í úrslitakeppnina eru úr sögunni eftir tap gegn Aftureldingu að Varmá 29:26 og Framarar eiga enn á hættu að falla úr deildinni.  Finnur Ingi Stefánsson skoraði 10 mörk fyrir Aftureldingu og Elvar Ásgeirsson 6 en hjá Frömurum var Þorsteinn Gauti Hjálmarsson atkvæðamestur með 9 mörk og þeir Þorgrímur Smári Ólafsson og Andri Þór Helgason skoruðu 5 mörk hvor.

Í Austurbergi gerðu ÍR og Stjarnan jafntefli 25:25 og eru bæði liðin örugg í úrslitakeppnina. Sturla Ásgeirsson og Kristján Orri Jóhannsson skoruðu 6 mörk hvor fyrir ÍR. Birgir Steinn Jónsson var markahæstur í liði Stjörnunnar með 7 mörk og Aron Dagur Pálsson skoraði 5.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert