Öruggur sigur Selfyssinga gegn botnliðinu

Atli Ævar Ingólfsson Selfyssingur reynir að komast í gegnum vörn …
Atli Ævar Ingólfsson Selfyssingur reynir að komast í gegnum vörn Gróttu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selfoss vann mjög öruggan sigur á botnliði Gróttu í næstsíðustu umferð Olísdeildar karla í handbolta á Selfossi í kvöld, 29:20.

Hápunktur kvöldsins hér í Hleðsluhöllinni var svo eftir leik þegar leikmenn og stuðningsmenn Selfoss fylgdust með æsispennandi lokamínútum í leik ÍBV og Hauka á risaskjá. Menn biðu og vonuðu og hvöttu ÍBV en það dugði ekki til, liðin skildu jöfn og deildarmeistaratitillinn er Hauka.

Selfoss náði sjö marka forskoti á fyrstu fjórtán mínútunum, 8:1, og Gróttumenn voru aldrei líklegir til þess að koma til baka. Staðan var 14:8 í hálfleik og munurinn varð mestur tíu mörk í seinni hálfleik, 24:14.

Leikurinn hér á Selfossi fer ekki í sögubækurnar. Gæðamunurinn á liðunum var mikill en Selfyssingar héldu einbeitingu og unnu sannfærandi sigur. 

Elvar Örn Jónsson og Hergeir Grímsson voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk og Haukur Þrastarson skoraði 5/1. Sölvi Ólafsson átti mjög góðan leik í marki Selfoss og varði 14/1 skot.

Hjá Gróttu skoruðu ellefu leikmenn mark, þar með talinn markvörðurinn Sverrir Andrésson sem varði 10/1 skot að auki. Viktor Orri Þorsteinsson og Jóhann Reynir Gunnlaugsson voru markahæstir með 4 mörk hvor.

Selfoss 29:20 Grótta opna loka
60. mín. Pawel Kiepulski (Selfoss) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert