Hefði viljað sleppa við Frakkana

Þórey Rósa Stefánsdóttir.
Þórey Rósa Stefánsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefði alveg getað orðið verra,“ sagði landsliðskonan Þórey Rósa Stefánsdóttir í samtali við mbl.is þegar leitað var viðbragða frá henni um dráttinn í undankeppni Evrópumóts kvennalandsliða í handknattleik en dregið var í Kaupmannahöfn á fimmta tímanum í dag.

Ísland mætir heims- og Evrópumeisturum Frakklands, Króatíu og Tyrklandi sem Ísland mætti í forkeppni HM í nóvember á síðasta ári þar sem Ísland vann stórsigur 36:23.

„Ég hefði viljað sleppa við að mæta Frökkunum enda er franska liðið frábært sem erfitt er að eiga við. Frakkar eru lið sem mér finnst henta okkur illa. Þeir eru svo ógeðslega góðir og líkamlega sterkir. En það er virkilega gaman að spila í Frakklandi og það er upplifun út af fyrir sig, sagði Þórey Rósa við mbl.is.

„Hvað hin tvö liðin varðar, Króatía og Tyrkland þá tel ég að við höfum verið nokkuð heppnar með mótherja. Ég veit að vísu lítið um króatíska liðið og mér skilst að Króatarnir hafi ekki verið með í lokakeppnum undanfarin ár.

Við mættum Tyrkjunum í nóvember og unnum þá sannfærandi. Sá leikur var mjög góður af okkar hálfu og ég held að munurinn sé minni á milli liðanna en lokatölurnar í þeim leik gefa til kynna. Við stefnum auðvitað á að komast á EM og ætli verði ekki barátta hjá okkur og Króötunum um annað sætið á eftir Frökkunum. Við Förum fullar af bjartsýni og tilhlökkunar í þetta verkefni en nú er öll okkar einbeiting á leikjunum á móti Spánverjum um laust sæti á HM. Ég er virkilega spennt fyrir þeim leikjum,“ sagði Þórey Rósa en Ísland og Spánn mætast í umspili um laust sæti á HM sem fram fer í Japan og hefst um mánaðarmótin nóvember-desember.

Fyrri leikur Íslendinga og Spánverja fer fram í Málaga á Spáni þann 31. maí og síðari leikurinn verður í Laugardalshöll 6. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert