Ætlum að stríða þeim duglega

Anna Úrsúla átti góðan leik fyrir Valskonur í kvöld og …
Anna Úrsúla átti góðan leik fyrir Valskonur í kvöld og skoraði fimm mörk. mbl.is/Eggert

„Ég er fyrst og fremst ánægð með sigurinn. Haukar eru með hörkulið og þær hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit í vetur,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 25:22-sigur liðsins gegn Haukum í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld en Valur vann einvígið samanlagt 3:0.

„Við erum stoltar að hafa unnið þær 3:0 því þetta var mjög erfitt verkefni. Við lentum í smá vandræðum í upphafi seinni hálfleiks og Ágúst tekur þá leikhlé. Við vorum ekki að klára skotin okkar og að sama skapi var varnarleikurinn ekki nægilega öflugur en mér fannst við laga það undir restina og það skilaði þessum sigri. Þetta var alls ekki okkar besti leikur í einvíginu en það er gott að byggja ofan á þetta fyrir úrslitarimmuna gegn Fram.“

Valur mætir Fram í úrslitum Íslandsmótsins en Valskonur hafa tapað öllum viðureignum sínum gegn Fram í deildinni í vetur.

„Ég er ekki að lasta neinn þegar ég segi að Fram og Valur séu bestu lið landsins í dag og þetta verða frábærir leikir. Það er allt undir núna og það lið, sem vill þetta meira, mun að lokum fagna sigri. Við sýndum það í bikarúrslitunum að við getum unnið Fram-liðið og við ætlum okkur að stríða þeim duglega.“

Anna Úrsúla og liðsfélagar hennar í Val eiga möguleika á því að vinna þrennuna í ár en þrátt fyrir það var þrennan ekki markmið tímabilsins hjá Hlíðarendaliðinu.

„Eina markmiðið sem við settum okkur fyrir tímabilið var að enda í topp fjórum í deildinni. Svo vatt hitt upp á sig en ég neita því ekki að það væri vissulega gaman að vinna þrennuna í vor,“ sagði Anna Úrsúla í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert