Frakkar fengu óvæntan skell

Luc Abalo og félagar í franska landsliðinu töpuðu illa í …
Luc Abalo og félagar í franska landsliðinu töpuðu illa í kvöld. AFP

Portúgal gerði sér lítið fyrir í kvöld og vann sannfærandi sigur á hinu firnasterka liði Frakka, 33:27, í undankeppni Evrópumóts landsliða í handknattleik karla en leikið var í Guimaraes í Portúgal.

Staðan í hálfleik var 17:13, Portúgölum í hag, og þeir hleyptu Frökkum aldrei of nálægt sér í seinni hálfleiknum. 

Þar með eru Portúgalar efstir í 6. riðli eftir fyrri umferðina með 6 stig, Frakkar eru með 4 stig, Rúmenar 2 og Litháar ekkert en Rúmenar unnu heimasigur á Litháum fyrr í dag, 28:23.

Tvö efstu lið riðlanna komast á EM og fjögur af átta liðum í þriðja sæti að auki þannig að segja má að með sigrinum í kvöld séu Portúgalar langt komnir með að tryggja sér sæti á EM.

Hollendingar, undir stjórn Erlings Richardssonar, töpuðu mjög naumlega fyrir Slóveníu á heimavelli, 26:27, eftir að hafa verið yfir nær allan tímann. Holland er með 2 stig eftir fyrri umferðina, Lettland 4 og Slóvenía 6 stig en Eistland er neðst í riðlinum án stiga.

Önnur úrslit í undankeppni EM í dag:

Finnland -  Bosnía 26:30
Rússland - Ungverjaland 19:25
Serbía - Króatía 25:25
Eistland - Lettland 18:24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert