„Hægðum á okkur en ekki þeim“

Arna Sif Pálsdóttir skoraði 9 mörk fyrir ÍBV í kvöld.
Arna Sif Pálsdóttir skoraði 9 mörk fyrir ÍBV í kvöld. mbl.is/Hari

Landsliðskonan Arna Sif Pálsdóttir sagðist lítið botna í skelfilegri byrjun ÍBV gegn Fram í Safamýrinni í kvöld. ÍBV er komið í sumarfrí því Fram vann rimmu liðanna í undanúrslitum 3:0. 

Fram sigraði 34:29 en liðið skoraði fyrstu sjö mörk leiksins og komst í 10:1. „Ef ég bara vissi,“ sagði Arna Sif þegar mbl.is spurði hana út í upphafsmínúturnar. „Þær byrjuðu ótrúlega vel og náðu allt of mörgum hraðaupphlaupum á okkur. Þar fór eiginlega leikurinn. Merkilegt að við skyldum láta þær komast upp með þetta því við vissum að þeirra taktík myndi ganga út á að ná hraðaupphlaupum. Við ætluðum að hægja á leiknum en hægðum frekar á okkur en þeim í þessum leik. Við fórum illa að ráði okkar,“ sagði Arna en eftir þessa byrjun var staðan vonlítil fyrir ÍBV gegn Íslandsmeisturunum á útivelli. 

ÍBV lék þó mun betur í síðari hálfleik en náði ekki að hleypa spennu í leikinn þar sem forskotið var orðið mikið. „Maður er það klikkaður að maður heldur að allt sé hægt. En við ákváðum að hætta að horfa á stöðuna og reyna að spila eins vel og við gátum. Mér fannst við gera það ágætlega og við héldum alla vega áfram. Lögðum ekki árar í bát og það varð smá leikur úr þessu þótt við minnkuðum forskotið ekki meira niður en í fimm mörk.“

Finnst Örnu 3:0 sýna getumuninn á liðunum? „Það getur verið erfitt að segja til um það en mér finnst það alls ekki. Þetta eru tvö hörkulið. Mér finnst Fram ekki endilega vera með betri leikmenn en við. Þær eru hins vegar taktíkst mjög góðar og nýta sína styrkleika vel. Það er nokkuð sem við getum bætt okkur í. Við gætum nýtt okkar styrkleika betur og það þarf að gera til að vinna leiki í úrslitakeppninni,“ sagði Arna Sif Pálsdóttir við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert