Erum ekki lengur „sérfræðingar“

Didier Dinart, landsliðsþjálfari Frakka.
Didier Dinart, landsliðsþjálfari Frakka. AFP

Didier Dinart landsliðsþjálfari Frakka í handknattleik segir að Frakkar hafi misst einkenni sitt en ein óvæntustu úrslit á handboltavellinum í langan tíma litu dagsins ljós í gærkvöld þegar Frakkar töpuðu fyrir Portúgölum 33:27 í undankeppni Evrópumótsins.

„Við þurfum að finna karakterinn, löngunina og að spila á hæsta stigi. Við erum ekki lengur „sérfræðingar“,“ sagði Dinart eftir leikinn en Frakkar fá tækifæri til að hefna ófaranna þegar þjóðirnar mætast aftur í Strassborg. Þetta var stærsti ósigur Frakka í undankeppni EM frá upphafi.

Fyrir leikinn í gær höfðu Portúgalar einu sinni borið sigurorð af Frökkum en það var í Þórshöfn í Færeyjum fyrir 39 árum síðan. Á þeim tíma voru Frakkar ekki hátt skrifaðir í handboltaheiminum en frá þeim tíma hafa Frakkar sex sinnum orðið heimsmeistarar, þrisvar sinnum Evrópumeistarar, tvisvar ólympíumeistarar og hafa unnið til bronsverðlauna á síðustu tveimur stórmótum, á EM 2018 og á HM í janúar á þessu ári.

Frá árinu 2006 hefur Portúgölum ekki tekist að komast í úrslitakeppni EM en nú eru þeir nánast komnir áfram með þrjá sigra eftir jafnmarga leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert