Fylkir og HK mætast í úrslitaeinvígi

Sigríður Hauksdóttir var öflug í liði HK og skoraði sex …
Sigríður Hauksdóttir var öflug í liði HK og skoraði sex mörk gegn FH. mbl.is/Eggert

Fylkir og HK mætast í úrslitaeinvígi um laust sæti í úrvalsdeild kvenna í handknattleik en þetta varð ljóst í kvöld. Fylkir vann nauman eins marks sigur gegn ÍR í öðrum leik liðanna í Árbænum í undanúrslitum umspilsins, 33:32, en leikurinn endaði í framlengingu. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 15:12, ÍR í vil, en Fylkiskonur komu til baka og tókst að jafna metin í síðari hálfleik og  var staðan 25:25 að loknum venjulegum leiktíma. Fylkiskonur reyndist sterkari í framlengingunni en Hrafnhildur Irma fór á kostum í liði Fylkis og skoraði fjórtán mörk. Fylkir vann fyrri leikinn með tveggja marka mun og fer því áfram í úrslitaeinvígið.

Í hinu úrslitaeinvíginu vann HK öruggan átta marka sigur gegn FH í Kaplakrikam 27:19. Staðan í hálfleik var 15:11, HK í vil, og Kópavogsliðið hélt áfram að þjarma að Hafnfirðingum í seinni hálfleik og vann að lokum öruggan sigur. Sigríður Hauksdóttir var markahæst í liði HK með sex mörk og Elva Arinbjarnar skoraði fimm mörk. HK vann fyrsta leik liðanna með þriggja marka mun og mætir því Árbæingum í úrslitaeinvígi um laust sæti í úrvalsdeildinni.

Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni en fyrsti leikurinn fer fram þann 22. apríl næstkomandi í Kópavoginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert