Elvar Örn tryggði stig í Skopje

Elvar Örn Jónsson tryggði íslenska landsliðinu annað stigið á erfiðum útivelli gegn Norður-Makedóníu í undankeppni EM í handknattleik karla í dag, 24:24. Hann jafnaði leikinn þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka. Þar með eru lið þjóðanna jöfn að stigum í tveimur efstu sætum þriðja riðils undankeppninnar með fimm stig. 

Norður-Makedóníumenn áttu síðustu sókn leiksins á síðustu þremur sekúndunum en skot Filip Kuzmanovski af mjög löngu færi var varið að Viktori Gísla Hallgrímssyni sem stóð lengst af í marki íslenska liðsins. Hann stóð sig afar vel og varði 12 skot í sínum fyrsta stóra landsleik aðeins 18 ára gamall.

Næsti leikur íslenska landsliðsins í undankeppninni verður í Grikklandi 12. júní og fjórum dögum síðar í Laugardalshöllinni á móti Tyrkjum. Sigri íslenska landsliðið í báðum leikjunum verður það gulltryggt með sæti í lokakeppni EM á næsta ári. 

Íslenska landsliðið var lengst af fyrri hálfleiks með yfirhöndina eftir að hafa leikið framúrskarandi varnarleik og vel heppnaðan sóknarleik framan af. Staðan í hálfleik var, 11:10, Íslandi í vil.

Fljótlega í síðari hálfleik  tók íslenska landsliðið forystuna og hafði tögl og hagldir fyrsta stundarfjórðunginn. Oft náði íslenska liðið þriggja marka forskoti, síðast, 18:15, þegar 17 mínútur voru til leiksloka. Varnarleikurinn var áfram frábær og Viktor Gísli vel með á nótunum í markinu en hann byrjaði í markinu, mörgum að óvörum. 

Norður-Makedóníumenn breyttu aðeins varnarleik sínum þegar á leið síðari hálfleik. Þeir bökkuðu aftur í 6/0. Breytingin hreif og í Norður-Makedóníumenn skoruðu fimm mörk í röð og komust yfir, 20:18, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Íslenska liðið sneri leiknum aftur sér í hag og komst yfir, 23:22, þegar þrjár mínútur voru eftir. Makedóníumenn svöruðu með tveimur mörkum, 24:23. Þeir fengu síðan möguleika á að ná tveggja marka forskoti, 25:23, en Viktor Gísli varði skot frá Kiril Lazarov þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum. Elvar Örn jafnaði síðan metin þegar innan við tíu sekúndur voru til leiksloka. 

Varnarleikur íslenska landsliðsins var lengst af alveg hreint framúrskarandi í leiknum þar sem Daníel Þór Ingason og Ýmir Örn Gíslason voru í stórum hlutverkum, ekki síst eftir á Ólafur Gústafsson meiddist á þumalfingri um miðjan fyrri hálfleik og kom ekkert meira við sögu.  Viktor Gísli var einnig mjög góður í markinu. Hann varði 12 skot og Ágúst Elí Björgvinsson þrjú, þar af eitt vítakast.

Ómar Ingi Magnússon fór hamförum í sóknarleiknum og var markahæsti leikmaður íslenska liðsins með átta mörk, fjögur í hvorum hálfleik. Lítið kom út úr hornaspili og af línunni. Þess vegna mæddi mikið á leikmönunum fyrir utan sem báru sóknarleikinn uppi. 

Í heildina góður leikur við afar erfiðar aðstæður. Athygli vakti að íslenska liðið fékk ekki eitt vítakast í leiknum. Dómarar leiksins, Lettarnir Zigmars Sondors og Renars Licis, drógu taum heimamanna sem fengu að leika afar langar sóknir, komast upp með ruðning hvað eftir annað, olnbogaskot og verjast með fótum í vörn. 

N-Makedónía 24:24 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið - gott jafntefli þegar upp var staðið.
mbl.is

Bloggað um fréttina