„Miklu meiri læti en ég bjóst við“

Ólafur Gústafsson og Viktor Gísli Hallgrímsson hlýða á þjóðsönginn fyrir ...
Ólafur Gústafsson og Viktor Gísli Hallgrímsson hlýða á þjóðsönginn fyrir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

Markvörðurinn efnilegi Viktor Gísli Hallgrímsson fékk tækifæri í A-landsleik í undankeppni stórmóts í fyrsta skipti þegar Ísland gerði jafntefli við Norður-Makedóníu í Skopje í kvöld í undankeppni EM. Viktor byrjaði inni á og stóð sig vel. 

„Þetta var náttúrulega geggjað. Það er nokkurn veginn það eina sem ég get sagt,“ sagði Viktor þegar mbl.is spurði hann hvernig upplifunin hafi verið en heimavöllur N-Makedóna er þekkt vígi í handboltaheiminum og gífurleg læti í áhorfendum. „Ég get alveg viðurkennt að þetta var miklu stærra dæmi en ég bjóst við og lætin miklu meiri. Þetta var rosalegt.“

Hlutirnir geta gerst hratt 

Viktor Gísli hefur spilað með yngri landsliðum Íslands og hlotið lof fyrir frammistöðu sína þar. Varði til að mynda mark U19 ára landsliðsins sem fékk silfurverðlaun á EM 2018. Hann leikur hér heima með Fram enn sem komið er og var nú kippt inn í landsliðshópinn með litlum fyrirvara. Eina stundina er hann að spila í Olís-deildinni en þá næstu stendur hann andspænis Kiril Lazararov, einum mesta markaskorara allra tíma, í undankeppni EM. 

„Já þetta er svolítið skrítið ef maður pælir í því. Maður hefur verið að spila með Fram í vetur en er svo skyndilega að spila á móti Lazararov og þessum körlum. En þetta er víst bara handbolti. Hraðinn er annar en annars var mjög svipað fyrir mig að vera inni á vellinum.“

Skilaboðin frá Svensson að njóta stundarinnar

Svíinn sigursæli Tomas Svensson er markmannsþjálfari í teymi íslenska landsliðsins. Mbl.is lék forvitni á að vita hvaða skilaboð hann hafi sent Viktor með inn á völlinn og þau virðast hafa verið einföld. „Hann sagði mér bara að vera ég sjálfur og hafa gaman af þessu.“

Viktor er sáttur við bæði úrslitin og eigin frammistöðu. „Maður segir ekki nei við stigi hérna þótt gaman hefði verið að vinna þá. Við misstum okkur aðeins niður um tíma í seinni hálfleik og það var svolítið dýr kafli. Þá misstum við niður smá forskot sem var svekkjandi. Ég var nokkuð sáttur við minn leik. Ég hefði viljað verja nokkur skot til viðbótar frá Lazarov en annars var þetta bara fínt,“ sagði Viktor Gísli í samtali við mbl.is í kvöld. 

mbl.is