„Varnarleikurinn var stórkostlegur“

Ómar Ingi Magnússon kominn fram hjá andstæðingi sínum sem hangir …
Ómar Ingi Magnússon kominn fram hjá andstæðingi sínum sem hangir í Íslendingnum en fékk ekki vítakast. Ljósmynd/Robert Spasovski

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, var virkilega ánægður með spilamennsku íslenska liðsins við erfiðar aðstæður í Skopje í kvöld þar sem Ísland gerði jafntefli 24:24 í undankeppni EM. 

„Við spiluðum frábæran leik. Ég er ánægður með margt að þessu sinni. Mér fannst varnarleikurinn alveg stórkostlegur hjá okkur. Á löngum köflum var ég ánægður með sóknarleikinn. Við byrjuðum vel og sköpuðum okkur mjög góð færi. Eins og ég segi eru ýmsir jákvæðir punktar. Ég var mjög ánægður með frammistöðu Viktors Gísla [Hallgrímssonar markvarðar]. Auðvitað var mjög stór ákvörðun að skipta út tveimur markvörðum og svo að láta Viktor byrja inni á. Ég er mjög sáttur við að það skyldi verða niðurstaðan. Hann stóð sig mjög vel í sínum fyrsta alvörulandsleik,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is náði tali af honum og hann færði rök fyrir því hversu vel hans mönnum tókst upp í vörninni. 

„Til að mynda skoruðu Makedónar ekki eitt einasta mark síðustu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik. Í þeim síðari fóru þeir í leikþrot sókn eftir sókn. Það var ég ánægður að sjá. Nýir menn komu inn í vörnina af bekknum eins og Daníel [Ingason] og Ýmir [Örn Gíslason] og gerðu það mjög vel. Þegar Óli Gúst meiddist þá kom í ljós að við höfum breiddina til að leysa það. Auk þess var gaman að sjá til Ómars Inga [Magnússonar]. Hann lenti í leiðindaatviki undir lok síðasta leiks en svaraði fyrir það með stórkostlegum leik í dag. Einnig var jákvætt að sjá Elvar [Örn Jónsson] taka af skarið og skora jöfnunarmarkið. Ég er mjög ánægður með útfærsluna á leiknum og liðið sýndi svakalegan styrk við erfiðar aðstæður. Við vorum að spila á mjög erfiðum útivelli og það er ekki einfalt að fara héðan með stig. Áhorfendur hérna eru erfiðir og dómgæslan var þannig að heimamenn fengu að spila mjög langar sóknir. Einnig má geta þess að við fengum ekki eitt einasta víti í leiknum. Ég man nú ekki eftir mörgum leikjum þar sem það er niðurstaðan. Brotið var á bæði Ómari og Elvari í dauðafærum án þess að dæmt væri víti og mjög óvenjulegt að upplifa þetta,“ sagði Guðmundur Guðmundsson enn fremur í samtali við mbl.is.  

Guðmundur hrósaði þeim Daníel Þór Ingasyni og Ómari Inga Magnússyni …
Guðmundur hrósaði þeim Daníel Þór Ingasyni og Ómari Inga Magnússyni fyrir þeirra frammistöðu. Ljósmynd/Robert Spasovski
Guðmundur Þórður Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld.
Guðmundur Þórður Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert