Króatar og Slóvenar komnir á EM

Frakkinn Nikola Karabatic sækir að vörn Portúgala.
Frakkinn Nikola Karabatic sækir að vörn Portúgala. AFP

Króatar og Slóvenar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni Evrópumóts karlalandsliða í handknattleik sem haldið verður Noregi, Svíþjóð og Austurríki á næsta ári.

Króatar báru sigurorð af Serbum í gær 27:23 en liðin skildu jöfn 25:25 í Serbíu í síðustu viku. Manuel Strlek skoraði 8 mörk fyrir Króata sem eru þar með komnir með 7 stig í riðlinum, Sviss er með 6 í öðru sæti, Serbía 2 og Belgía rekur lestina með 1 stig. Serbar verða að vinna Belga og Svisslendinga og stóla á að Króatar vinni Svisslendinga til að komast áfram.

Slóvenar lögðu Erling Richardsson og lærisveina hans í liði Hollands 30:23 og eru komnir áfram en þeir hafa unnið alla fjóra leiki sína. Miha Zarabec var markahæstur í liði Slóvena með 5 mörk.

Frakkar náðu fram hefndum gegn Portúgölum en eftir að hafa tapað óvænt í Portúgal í síðustu viku unnu Frakkar níu marka sigur í gær 33:24. Frakkar og Portúgalar eru þar með hvorir tveggja með 6 stig og eru nokkuð öruggir um að komast áfram. Michael Guigou og Nedim Remeli voru markahæstir í liði Frakkanna með 7 mörk hvor.

mbl.is