Lykilmenn ekki með í úrslitakeppninni

Agnar Smári Jónsson verður ekki með Val í úrslitakeppninni.
Agnar Smári Jónsson verður ekki með Val í úrslitakeppninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Agnar Smári Jónsson, ein besta hægri skytta sem spilar hér á landi, verður ekkert með Val í úrslitakeppninni í handbolta sem hefst á laugardaginn. Agnar er að glíma við brjóskloss og fór í aðgerð vegna þessa á dögunum. 

Valur mætir Aftureldingu á heimavelli í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum á laugardaginn kemur. Valur hafnaði í þriðja sæti deildarinnar og Afturelding í sjötta sæti. 

Valsmenn verða án tveggja bestu leikmanna sinna því Magnús Óli Magnússon meiddist undir lok deildarkeppninnar og verður ekkert með. Orri Freyr Gíslason, fyrirliði Vals, staðfesti í samtali við mbl.is að Agnar verði ekki með, en áður var vitað að Magnús yrði frá fram að næsta tímabili. 

„Aggi og Maggi verða ekki með. Við getum ekkert verið að pæla í þeim. Allir aðrir eru heilir," sagði Orri Freyr. 

Egill og Arnór ekki með

Egill Magnússon, besti leikmaður Stjörnunnar, verður ekki með liðinu í úrslitakeppninni vegna meiðsla. Hann fór í aðgerð fyrir skemmstu og ferður ekki klár í slaginn fyrr en á næstu leiktíð. 

Þá verður Arnór Freyr Stefánsson, markmaður Aftureldingar, ekki með vegna meiðsla og óvíst er hvort Birkir Benediktsson, einn besti varnarmaður liðsins og stórskytta verði búinn að jafna sig í tæka tíð. 

Mbl.is birtir viðtöl við leikmenn og þjálfara liðanna á næstu dögum og hitar vel upp fyrir úrslitakeppnina sem hefst næstkomandi laugardag með fjórum leikjum í átta liða úrslitum. 

Egill Magnússno verður ekki með Stjörnunni í úrslitakeppninni.
Egill Magnússno verður ekki með Stjörnunni í úrslitakeppninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert