Sjö skemmtileg og lærdómsrík ár erlendis

Hildigunnur Einarsdóttir hjá Dortmund
Hildigunnur Einarsdóttir hjá Dortmund

„Eins og staðan er í dag þá er ekki útlit fyrir annað en að ég flytji heim í sumar,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir handknattleikskona í samtali við Morgunblaðið.

Í sumar hefur hún verið úti í sjö ár sem atvinnukona í handknattleik. Í vetur hefur Hildigunnur leikið með Borussia Dortmund í efstu deildinni í Þýskalandi. Enn er rúmur mánuður eftir af keppnistímabilinu en Hildigunnur segir ljóst að hún verði ekki áfram í herbúðum Dortmund-liðsins sem hefur leikið undir væntingum á keppnistímabilinu.

„Ég þarf að minnsta kosti að detta niður á eitthvað æðislega gott til þess að vera áfram úti. Nú um stundir er ekkert spennandi í boði auk þess sem eitt og annað er farið að toga í mig heim. Þess vegna er kannski best að láta gott heita, flytja heim og takast á við lífið þar,“ segir Hildigunnur sem er alls ekki að hætta í handboltanum. Enn er þó óljóst hjá hvaða liði hún stingur við stafni verði af heimferð eins og margt bendir til.

Topplið í Þýskalandi og titlar í Austurríki

Hildigunnur lék með Val áður en hún gekk til liðs við Tertnes í Noregi fyrir nærri sjö árum. Eftir Tertnes-árin flutti hún sig um skamman tíma til Svíþjóðar, en lék síðan um tveggja ára skeið með einu fremsta félagsliði Evrópu á þeim tíma, Leipzig í Þýskalandi. Þar næst gekk hún til liðs við Hypo í Austurríki sumarið 2017 þegar Leipzig varð óvænt gjaldþrota. Með Hypo varð Hildigunnur austurrískur meistari og bikarmeistari fyrir ári áður en hún flutti sig á ný yfir landamærin og samdi við Borussia Dortmund.

Nánar er rætt við Hildigunni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert