Stjörnuhrap í seinni hálfleik

Adam Haukur Bamruk sækir að vörn Stjörnunnar í dag.
Adam Haukur Bamruk sækir að vörn Stjörnunnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Deildarmeistarar Hauka eru komnir í 1:0 í einvíginu gegn Stjörnunni í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í handknattleik en Haukarnir fögnuðu öruggum sigri 28:19 eftir að hafa verið í töluverði basli í fyrri hálfleik.

Stjörnumenn voru skrefinu á undan nær allan fyrri hálfleikinn. Þeir náðu að trufla mjög sóknarleik Haukanna með 5:1 vörn sinni og í sókninni spiluðu þeir með aukamann og léku langar sóknir sem pirruðu liðsmenn Haukanna.

Getumunur liðanna kom berlega í ljós í seinni hálfleik. Haukarnir mættu mjög ákveðnir til leiks en segja má að um algjört stjörnuhrap hafi orðið hjá Garðbæingum. Þeir léku seinni hálfleikinn afleitlega í vörn og sókn og Haukarnir gengu á lagið og skoruðu hvert markið á fætur öðru og mörg þeirra í autt mark Stjörnumanna sem héldu áfram að rembast við að spila með aukamann í sókninni sem gekk engan veginn upp þegar líða fór á leikinn.

Haukarnir náðu mest tíu marka forskoti í seinni hálfleik og eftir það gátu þeir leyft sér að hvíla leikmenn og búa þá undir leikinn í Garðabænum á annan dag páska. Ef að líkum lætur tryggja Haukarnir sér sæti í undanúrslitunum. Ég sé ekki að Stjarnan eigi roð í deildarmeistarana.

Adam Haukur Baumruk og Brynjólfur Snær Brynjólfsson voru atkvæðamestir í liði Haukanna og skoruðu sex mörk hvor og Grétar Ari Guðjónsson átti fínan leik í markinu og varði jafnt og þétt allan tímann. Daníel Þór Ingason fékk þungt höfuðhögg þegar 23 mínútur voru liðnar af leiknum og hann kom ekkert meira við sögu það sem eftir lifði leiksins. Brotthvarf hans kom ekki að sök enda eru Haukarnir vel mannaðir og fyrir leikinn á mánudaginn endurheimta þeir Ásgeir Örn Hallgrímsson sem tók út leikbann í dag.

Birgir Steinn Jónsson var atkvæðamestur í liði Stjörnunnar með 5 mörk en Garðbæingar misstu algjörlega móðinn eftir ágæta frammistöðu í fyrri hálfleiknum. Það var skarð fyrir skildi í liði Stjörnumanna að stórskyttan Egill Magnússon spilaði ekki en hann gekkst undir aðgerð á fæti á dögunum og spilar ekkert meira á tímabilinu.

Haukar 28:19 Stjarnan opna loka
60. mín. Leik lokið Öruggur sigur Hauka sem eru komnir í 1:0.
mbl.is