Valur í forystu eftir framlengda háspennu

Birkir Benediktsson sækir að Vigni Stefánssyni og Alexander Erni Júlíussyni ...
Birkir Benediktsson sækir að Vigni Stefánssyni og Alexander Erni Júlíussyni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn eru komnir í 1:0 gegn Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta eftir 28:25-sigur í framlengdum leik á heimavelli í kvöld. 

Róbert Aron Hostert fór vel af stað í leiknum og skoraði hann tvö af fyrstu þremur mörkum Vals og kom liðinu í 3:1. Afturelding svaraði með að komast í 5:3 og voru gestirnir með forskotið út allan fyrri hálfleikinn. 

Elvar Ásgeirsson spilaði glimrandi vel og réðu Valsmenn illa við hann. Elvar skoraði sex mörk í fyrri hálfleik. Hinum megin gekk Val illa í sókninni í fjarveru Magnúsar Óla Magnússonar og Agnars Smára Jónssonar. 

Róbert Aron Hostert reyndi hvað hann gat til að halda uppi sóknarleik Vals, en aðrir leikmenn voru einfaldlega ekki að spila vel í fyrri hálfleik. 

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn vel og fengu ekki mark á sig á fyrstu tíu mínútum hans. Á þeim kafla minnkuðu þeir muninn í eitt mark, 14:13. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður jafnaði Valur svo í fyrsta skipti í seinni hálfleik, 16:16 og komst svo yfir, 17:16. 

Næstu mínútur voru hnífjafnar og var staðan 20:20 þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Afturelding komst í 22:21 og náðu svo boltanum. Þegar örfár sekúndur voru til leiksloka stal Anton Rúnarsson hins vegar boltanum og skoraði úr hraðaupphlaupi og jafnaði og því varð að framlengja. 

Liðin skiptust á að skora í framlengingu og var Valur með eins marks forskot í hálfleik framlengingarinnar, 26:25. Aftureldingu tókst ekki að skora í seinni hálfleik framlengingarinnar og fór Valur því með sigur af hólmi. 

Valur 28:25 Afturelding opna loka
70. mín. Leik lokið 1:0 fyrir Val eftir mikinn spennuleik!
mbl.is