Vorum mjög lengi í gang

Brynjólfur Snær Brynjólfsson.
Brynjólfur Snær Brynjólfsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum mjög lengi í gang og sóknarleikurinn í fyrri hálfleiknum var alveg hræðilegur en við tókum okkur saman í seinni hálfleiknum og sigldum öruggum sigri í hús,“ sagði Brynjólfur Snær Brynjólfsson, hornamaðurinn knái í liði Hauka, við mbl.is eftir öruggan sigur gegn Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í handknattleik.

Haukarnir voru marki yfir í hálfleik en í síðari hálfleik tóku þeir öll völdin og innbyrtu níu marka sigri.

„Við vorum alveg búnir að undirbúa okkur undir að Stjarnan spilaði þessa vörn og myndi spila með aukamann í sókninni. Við spiluðum bara langt undir getu í fyrri hálfleik en í seinni hálfleiknum small þetta saman hjá okkur. Stjarnan átti möguleika í vörnina okkar sem við náðum upp í seinni hálfleik og við leystum fáránlega vel sex á móti sjö.

Gunni þjálfari var mjög rólegur í leikhléinu. Hann fór vel yfir hlutina með okkur og við náðum að laga það sem fór úrskeiðis í fyrri hálfleiknum. Það er stefnan að gera út um þetta einvígi á mánudag og fá hvíldina,“ sagði Brynjólfur Snær, sem var markahæstur í liði Haukanna ásamt Adam Hauki Baumruk en báðir skoruðu þeir 6 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert