„Áttum frábæra leiki á deginum okkar“

Björgvin Hólmeirsson fór fyrir liði ÍR í kvöld og skoraði ...
Björgvin Hólmeirsson fór fyrir liði ÍR í kvöld og skoraði sjö mörk. mbl.isÁrni Sæberg

„Það er drullu fúlt að tapa þessu því mér fannst við eiga skilið annan leik á móti þeim,“ sagði Björgvin Hólmgeirsson, leikmaður ÍR, í samtali við mbl.is eftir 29:28-tap liðsins gegn Selfossi í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Austurbergi í kvöld en Breiðhyltingar eru komnir í sumarfrí eftir úrslit kvöldsins.

„Við náum fimm marka forskoti í fyrri hálfleik en missum þetta niður í tvö mörk undir lok hálfleiksins á mjög klaufalegan hátt. Þeir koma inn í seinni hálfleikinn með smá meðbyr og síðan er þetta bara stál í stál, síðasta korterið. Ég veit ekki alveg hvað gerist hjá okkur undir lokin en þetta er gríðarlega svekkjandi.“

ÍR endaði í sjöunda sæti deildarinnar á meðan Selfyssingar enduðu í öðru sæti. Þrátt fyrir það var voru leikir liðanna í átta liða úrslitunum hörkuleikir þar sem Selfoss vann báða leikina með einu marki.

„Við vorum að glíma við þónokkur meiðsli í vetur og náðum nánast aldrei að stilla upp okkar sterkasta liði í deildarkeppninni í vetur. Samt höfum við verið að ná í góð úrslit, t.d í Eyjum þar sem við náum í sigur. Við gerum jafntefli við Hauka þar sem þeir jafna á lokasekúndunum og rúllum yfir Aftureldingu. Við áttum frábæra leiki þegar að við vorum á deginum okkar og þetta einvígi við Selfoss var algjört 50/50 einvígi.“

ÍR-ingar fengu þrjár sekúndur til þess að jafna leikin en Kristján Orri Jóhannsson setti boltann í stöngina og út af frá eigin vítateig.

„Ég áttaði mig ekki á því hvað gerist þarna undir restina. Mér sýndist boltinn vera á leiðinni inn og ég veit ekki alveg hvað markmaðurinn þeirra var að gera þarna en það hefði verið hrikalega gaman að komast í framlengingu á svona marki og það gerir þetta því ennþá meira svekkjandi,“ sagði Björgvin Hólmgeirsson í samtali við mbl.is.

mbl.is