Dómararnir leyfðu þeim að berja okkur

Heimir Óli Heimisson.
Heimir Óli Heimisson. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var hreint út sagt skelfing. Nú er það meiri handbolti og meiri skemmtun, svo við mætum ferskir á miðvikudaginn í oddaleik," sagði svekktur Heimir Óli Heimisson, leikmaður  Hauka, eftir 25:33-tap fyrir Stjörnunni í átta liða úrslitum á Íslandsmótinu í handbolta. Staðan í einvíginu er nú 1:1. 

Heimir átti erfitt með að nefna hvað fór úrskeiðis hjá Haukum í kvöld, þar sem það hefði tekið ansi langan tíma. 

„Hvað var að virka? Það var ekki neitt að virka í þessum leik fannst mér. Þeir ná upp baráttu og berja okkur í tætlur. Þeir gerðu það vel. Þeir komust upp með það, því dómararnir leyfðu þeim að berja okkur. Ef dómararnir leyfa það, verðum við að gera það sama."

Flestir bjuggust við öruggum sigri Hauka í dag og viðurkennir Heimir að Haukar gætu hafa verið værukærir. 

„Það er erfitt að segja að það hafi ekki verið eftir svona útreið," sagði Heimir, áður en hann bætti við að Haukarnir hafi búist við erfiðu einvígi. „Við bjuggumst við hörkueinvígi. Við erum búnir að keppa við þá tvisvar í deildinni og núna tvisvar í úrslitakeppninni. Þetta voru jafnir leikir í deildinni, svo við bjuggumst við jöfnu einvígi," sagði Heimir Óli. 

mbl.is