Erum með nýtt lið en sterkt félag

Eyjamenn brugðu á leik eftir sigurinn og tóku fram sópinn …
Eyjamenn brugðu á leik eftir sigurinn og tóku fram sópinn fræga! Ljósmynd/Sigfús G. Guðmundsson

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var gríðarlega sáttur með leik sinna manna í dag þegar liðið sigraði FH-inga í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik. ÍBV sendi FH-inga í sumarfrí í leiðinni, þar sem liðið vann einnig fyrri leikinn á laugardag.

Leiknum lauk með átta marka sigri 36:28 og sagði Erlingur að hann hefði ekki búist við því að sigurinn yrði svo stór.

„Ég er himinlifandi með frammistöðu liðsins, bæði í vörn og sókn. Þeir skoruðu fljótt á okkur þrjú mörk og hélt ég að þetta yrði erfitt varnarlega, en það má segja að þeir hafi læst varnarlega. Róbert er búinn að vera frábær fyrir miðri vörninni, hann stjórnar þessu með Magga, sama get ég sagt um alla aðra. Það fara nánast allir í vörn og taka þátt í varnarleiknum, það er gott því þá getum við hvílt menn. Sóknarlega stjórnum við leiknum mjög vel, héldum okkar skipulagi og það skilaði sér mjög vel, það eru 10 leikmenn sem skora.“

Eyjamenn fengu góða markvörslu í þessu einvígi, en það hefur í raun verið það sem hefur vantað upp á í liði ÍBV á leiktíðinni.

„Það hafa allir stigið upp finnst mér, það sem einkennir liðið er mikil leikgleði og samstaða. Leikmenn eru tilbúnir að berjast fyrir hvorn annan og félagið, líka fyrir fólkið. Ég verð að impra enn og aftur á þessum stuðningi hérna, þetta er alveg frábært. Það eru allir leikmenn og samfélagið einhuga um að leggja sig fram í þetta verkefni,“ sagði Erlingur en stuðningurinn í Vestmannaeyjum í dag var ótrúlegur.

„Þetta hefur verið alveg æðislegt, við höfum fengið slaka til að byggja upp liðið, það er gott að við séum að smella saman akkúrat núna. Kári er eini byrjunarliðsleikmaður liðsins frá síðustu leiktíð, þetta er nýtt lið, en sterkt félag.“

 Erlingur segist ekki hafa búist við svo stórum sigri.

„Það væri hroki ef ég myndi segja að ég hefði búist við átta marka sigri, ég vissi samt, miðað við fyrri leikinn að þeir þyrftu að gera eitthvað til að komast í gegnum okkur varnarlega. Við fundum það mjög fljótt að þeir voru að ströggla og áttu erfitt með að koma sér í gegn. Jóhann náði aðeins að stríða okkur með góðum skotum á öðruvísi tímapunkti, sem hélt þeim inni í leiknum. Við náðum að loka á allt annað sem þeir reyndu að gera.“

Sigurbergur hefur öðlast nýtt hlutverk

Sigurbergur Sveinsson hefur öðlast nýtt hlutverk í liðinu, en hann er nýkominn úr meiðslum og hefur leik oftar en ekki á bekknum, hann hefur þá komið gríðarlega sterkur inn.

„Hann setur meiri ógnun á skotin fyrir utan, hann og Kristján Örn sjá um það. Síðan erum við með Fannar og Dag í hraðanum og þetta er bara frábært. Þetta var frábær handboltaleikur.“

Gabríel Martinez er stjarnan sem er að fæðast í liði ÍBV en hann nýtti öll tíu skotin sín í einvíginu. Theodór Sigurbjörnsson er meiddur og hefur Gabríel verið að koma sterkur inn.

„Hann er mikill sleði, ískaldur í þessu. Hann er búinn að standa sig frábærlega, hann fær mikinn stuðning frá reynslumeiri mönnum, þeir hvetja hann alveg óspart áfram. Hann hefur sýnt fjölbreytni í skotum í öllum þessum leikjum, það er frábært og varnarlega stendur hann mjög vel. Það er eins og hann hafi verið í þessu í 10 ár, Teddi sér núna að hann þarf að leggja sig fram ef hann ætlar að fá þessa stöðu aftur,“ segir Erlingur brosandi, en Teddi verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin 6 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert