Hvergi skemmtilegra að spila en hérna

Sigurbergur Sveinsson.
Sigurbergur Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurbergur Sveinsson, leikmaður ÍBV, var gríðarlega sáttur við það að fá að sópa sínum gömlu erkifjendum í FH úr leik í dag, þegar ÍBV vann átta marka sigur á heimavelli 36:28.

„Já og nei, ég veit það ekki. Ég vissi það að ef við myndum mæta með þennan ákafa og fara eftir leikskipulaginu myndum við eiga góðan dag. Það var svo sannarlega það sem gerðist,“ sagði Sigurbergur aðspurður hvort hann hefði búist við svona stórum sigri.

Eyjamenn gáfu tóninn strax í byrjun og sást fljótt í hvað stefndi.

„Mér fannst þeir ekki eiga séns í okkur frá fyrstu mínútu. Vörnin okkar var hrikalega öflug og sóknarleikurinn vel smurður allan leikinn.“

Sigurbergur er í hlutverki sem hann er alls ekki vanur, hann er að koma úr meiðslum og byrjar leikina á bekknum.

„Það er fínt, við erum að dreifa álaginu á leikmenn, það eru allir að spila. Hvort ég byrji eða komi inn á af bekknum það skiptir mig engu máli þannig séð.“

„Stemningin í húsinu í dag var stórkostleg, það er örugglega hvergi skemmtilegra en hérna,“ sagði Sigurbergur um stemninguna í dag, en Sigurbergur hefur einnig spilað á móti ÍBV hér í Eyjum, er það jafn erfitt og allir halda?

„Ég held að það sé gríðarlega erfitt að koma hingað, þegar stemningin er svona og við erum í þessum takti er klárlega mjög erfitt að koma hingað.“

Sigurbergur er auðvitað Haukamaður og því mjög sætt fyrir hann að slá FH-inga úr leik.

„Það var það klárlega, það skemmir ekkert fyrir að hafa sópað FH út, mér finnst það bara skemmtilegt.“

Mögulegir mótherjar ÍBV í undanúrslitum eru Haukar og Stjarnan, á Sigurbergur sér óskamótherja?

„Nei, við sjáum hvernig þetta fer. Við verðum að sjá hvað gerist, við fáum nokkra aukadaga á annað hvort liðið þannig að við verðum að sjá hvað gerist,“ stígandinn í ÍBV liðinu hefur verið mikill og liðið að nálgast sitt besta núna.

„Við erum með mikið breytt lið og nýja þjálfara með nýjar áherslur, þetta hefur verið að smyrjast hægt og rólega, en núna er kominn fínn taktur í þetta hjá okkur á hárréttum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert