Jafnt eftir óvæntan stórsigur Stjörnunnar

Leó Snær Pétursson skýtur að marki Hauka.
Leó Snær Pétursson skýtur að marki Hauka. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan vann afar óvæntan 33:25-sigur á Haukum í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í dag. Staðan í einvíginu er því 1:1.

Haukar eru deildarmeistarar og unnu fyrsta leikinn með níu mörkum og voru því fáir sem bjuggust við öðru en Haukasigri í dag. 

Stjörnumenn byrjuðu af miklum krafti og náðu snemma fimm marka forystu, 8:3. Sóknarleikur Stjörnunnar var afar góður framan af og tókst heimamönnum að skapa sér fullt af góðum færum framan af leik.

Haukar tóku við sér eftir því sem leið á hálfleikinn og tókst þeim að minnka muninn í eitt mark, 11:10, þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Andri Scheving kom inn fyrir Grétar Ara Guðjónsson í markið og þá gekk Haukum betur.

Stjörnumenn voru hins vegar ekki af baki dottnir og tókst þeim að bæta í forskotið fyrir hálfleik. Staðan í leikhléi var 15:12, Stjörnunni í vil. Stjörnumenn héldu yfirhöndinni í upphafi seinni hálfleiks og var staðan 20:16, eftir tæpar tíu mínútur í honum. 

Góð spilamennska Stjörnunnar hélt áfram og varð munurinn sex mörk í fyrsta skipti þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 25:19. Stjörnumenn héldu áfram að gefa í og Haukar skoruðu ekki í tíu mínútur og náði Stjarnan í kjölfarið tíu marka forystu, 29:19. 

Haukar löguðu stöðuna aðeins á lokakaflanum, en sigur Stjörnumanna var ekki í hættu. Oddaleikur liðanna fer fram í Schenker-höllinni á miðvikudaginn kemur. 

Stjarnan 33:25 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Glæsilegur sigur Stjörnunnar. Staðan er 1:1.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert