Lúxus að hafa þessar stelpur fyrir framan sig

Íris Björk Símonardóttir, markvörður Vals.
Íris Björk Símonardóttir, markvörður Vals. mbl.is/Hari

„Það gekk allt upp hjá okkur að þessu sinni. Svona viljum við hafa þetta,“ sagði Íris Björk Símonardóttir, markvörður Vals sem átti stórleik og varði 25 skot þegar Valur vann Fram, 28:21, í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna á heimavelli Vals í kvöld.

„Við slökuðum aðeins á eftir miðjan seinni hálfleik og þá náði Fram-liðið að minnka muninn. Þá sást vel hvað gerist ef við erum ekki á fullri ferð frá upphafi til enda leiksins gegn jafn sterku lið og Fram er. Þar voru minntar á að að það má ekki slaka á í leikjum,“ sagði Íris Björk ennfremur en lengst af leiksins var Valur með fjögurra til sex marka forskot.

Íris Björk sagði það vera einfaldara fyrir sig að standa í markinu þegar varnarleikurinn er jafn góður og hann var hjá Val að þessu sinni eins og svo oft á keppnistímabilinu. „Það er lúxus að hafa þessar stelpur fyrir framan sig.“

Tveir dagar eru fram að næsta leik í einvíginu sem fram fer á heimavelli Fram á sumardaginn fyrsta. Íris sagði lítinn tíma vera til að jafna sig. „Það er bara heitt og kalt bað fyrir okkur þær eldri og hámark fyrir þær yngri. Við verðum að hugsa vel um okkur og halda áfram að læra hvað má betur fara,“ sagði Íris Björk sem þekkir vel til sögunnar þótt hún hafi ekki verið í Valsliðinu fyrir ári. Þá vann Valur fyrsta úrslitaleikinn við Fram en tapaði síðan þremur í röð og varð að gera sér silfurverðlaunin að góðu.  „Við erum engir vitleysingar. Fyrir leikinn í kvöld höfðu við leikið fjóra leiki við Fram í vetur og tapað í þremur þeirra og það sannfærandi. Við gerum okkur grein fyrir að það gekk allt upp hjá okkur í kvöld en fátt gekk upp hjá þeim. Næsti leikur verður allt öðruvísi en þessi. Það er alveg ljóst,“ sagði Íris Björk Símonardóttir, markvörður Vals í samtali við mbl.is eftir sigurinn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert