Vörnin og Íris sáu um Framara

Lovísa Thompson tekin föstum tökum í kvöld.
Lovísa Thompson tekin föstum tökum í kvöld. mbl.is/Eggert

Frábær varnarleikur Vals og stórleikur Írisar Bjarkar Símonardóttur markvarðar skóp öruggugan sigur Vals á ríkjandi Íslandsmeisturum Fram í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í Origo-höll Valsmanna við Hlíðarenda í kvöld, 28:21. Íris Björk varði 25 skot og hreinlega lokaði markinu á köflum á bak við einstaklega góðan varnarleik Valsliðsins sem hefur tekið forystu í einvíginu, 1:0.

Næsti leikur liðanna verður á heimavelli Fram á fimmtudaginn og hefst kl. 16. 

Leiðir liðanna skildi fljótlega. Afar sterkt vörn Vals gerði að verkum að Fram-liðinu gekk illa að koma skotum á markið og ef þau komust framhjá vörninni var Íris Björk Símonardóttir vel með á nótunum í markinu. Varnarmenn Vals náðu hvað eftir annað að brjóta niður taktinn í sóknarleik Fram eða að neyða leikmenn í erfið skot.

 Vörn Fram var að sama skapi ekki eins öflug og stundum áður. Margir leikmanna Vals lögðu í púkkið í sókninni auk þess sem mikill munur var á markvörslunni. Ekki bætti úr skák að leikmenn Fram urðu ragir við að skjóta að marki Vals þegar á leið hálfleikinn.

Eftir 20 mínútur var munurinn orðinn fimm mörk, 12:7, Val í vil. Sami munur var í hálfleik, 15:10.

Valur hóf síðari hálfleik á líkum nótum og liðið lauk þeim seinni. Valur hafði tögl og hagldir og Íris Björk hélt áfram að fara hamförum í markinu og var með yfir 60% markvörslu þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Staðan var þá, 22:17, Val í vil.

Fram-liðið bet betur frá sér þegar á leið sem bættum varnarleik auk þess sem Erla Rós Sigmarsdóttir vaknaði í markinu. Sóknarleikurinn var hinsvegar áfram erfiður svo forskot Vals var lengi að mjatlast niður.

Sjö mínútum fyrir leikslok var munurinn kominn niður í þrjú mörk, 23:20.  Valur svaraði um hæl með tveimur mörkum í röð. Þar með voru úrslitin ráðin þótt enn væru ríflega fimm mínútur til leiksloka. Loktölur, 28:21, og ljóst að Fram-liðið hefur verk að vinna fyrir næsta leik á fimmtudaginn.

Íris Björk Símonardóttir varði 25 skot í marki Vals en fékk á sig 19 mörk. Það gerir ríflega 60% hlutfallsmarkvörslu. Ljóst er að það eitt og sér erfitt fyrir Fram að eiga við. Ekki bætti úr skák frábær varnarleikur Önnur Úrsúlu Guðmundsdóttir, Gerðar Arinbjarnar og Hildar Björnsdóttur í vörninni auk þess sem Díana Dögg Magnúsdóttir og Lovísa Thompson voru öflugar að vanda í bakvarðarstöðunum.

Fram-liðið lenti á vegg, ekki ósvipað og í bikarúrslitaleik liðanna fyrir rúmum mánuði. Jafnt varnar- sem sóknarleikur liðsins þarf lagfæringar við ef ekki á illa að fara í þessu einvígi.

Valur 28:21 Fram opna loka
60. mín. Erla Rós Sigmarsdóttir (Fram) varði skot
mbl.is