Aron kominn langleiðina til Kölnar

Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk í kvöld.
Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk í kvöld. mbl.is/Hari

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona unnu góðan sjö marka útisigur gegn Nantes í Frakklandi í kvöld, 32:25, í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta.

Barcelona er því í mjög góðum málum fyrir seinni leik liðanna sem fram fer á Spáni 4. maí. Sigurliðið í einvíginu kemst áfram í Final 4, fjögurra liða úrslitahelgina sem fram fer í Köln í byrjun júní.

Aron skoraði þrjú mörk í leiknum í kvöld auk þess að leggja upp sinn skerf af mörkum en franski línumaðurinn Ludovic Fabregas var markahæstur með níu mörk.

Flensburg og Veszprém léku einnig fyrri leik sinn í Þýskalandi í kvöld þar sem ungverska liðið vann frækinn útisigur, 28:22. Á morgun leika Vardar og Pick Szeged, með Stefán Rafn Sigurmannsson í broddi fylkingar, sinn fyrri leik í Makedóníu. Vive Kielce og PSG mætast svo á laugardaginn.

mbl.is