Haukar sannfærandi í oddaleiknum

Haukamaðurinn Ásgeir Örn Hallgrímsson í dauðafæri í leiknum gegn Stjörnunni …
Haukamaðurinn Ásgeir Örn Hallgrímsson í dauðafæri í leiknum gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Eggert

Haukar mæta ÍBV í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta eftir 30:23-sigur á Stjörnunni á heimavelli í oddaleik í kvöld. Haukar vinna einvígið 2:1, en viðureignin var sú eina sem fór í oddaleik, þrátt fyrir að Haukar séu deildarmeistarar og að Stjörnumenn enduðu í áttunda sæti.

Haukarnir byrjuðu af miklum krafti og komust snemma í 6:1. Stjörnumenn spiluðu með sjö menn í sókninni og fengu það hvað eftir annað í bakið. Haukar þökkuðu fyrir sig með mörkum yfir allan völlinn í autt markið.

Stjörnumenn tóku aðeins við sér um miðbik fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í þrjú mörk, 9:6. Haukar voru hins vegar mun sterkari eftir því sem leið á hálfleikinn og voru þeir að lokum átta mörkum yfir í hálfleik, 17:9.

Haukar náðu ellefu marka forskoti í byrjun seinni hálfleiks, 20:9 og reyndist eftirleikurinn auðveldur fyrir heimamenn. Stjörnumenn reyndu að minnka muninn, en Haukar voru alltaf með svör og var forskoti þeirra ekki ógnað. 

Grétar Ari Guðjónsson varði ágætlega í markinu hjá Haukum á meðan sóknarleikurinn var heilt yfir góður, þar sem margir leikmenn lögðu sitt að mörkum. Aron Dagur Pálsson fór fyrir Stjörnumönnum, en hann þurfti meiri hjálp frá liðsfélögunum, sem flestir náðu sér ekki á strik. 

Haukar 30:23 Stjarnan opna loka
60. mín. Leik lokið Haukar mikið sterkari í dag. Þeir mæta ÍBV í undanúrslitum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert