Ótrúlega mikið búið að ganga á

Árni Þór Sigtryggson (til vinstri) stendur vörn.
Árni Þór Sigtryggson (til vinstri) stendur vörn. mbl.is/Árni Sæberg

Árni Þór Sigtryggsson, leikmaður Stjörnunnar, var svekktur eftir 23:30-tap gegn Haukum í oddaleik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld. Mikil sveifla var í leikjum liðanna og skiptust þau á stórsigrum. 

„Þetta er endurtekning á seinni hálfleik í fyrsta leiknum. Við byrjum illa en náum að minnka þetta í þrjú í fyrri hálfleik. Þeir sigu hins vegar alltaf fram hjá okkur og þetta reyndist of stórt bil til að brúa," sagði Árni í samtali við mbl.is um leikinn. 

Haukar komust í 6:1 snemma leiks og voru Stjörnumenn ekki líklegir til að jafna eftir það, á móti sterku Haukaliði. 

„Við komumst ekki í vörnina okkar á meðan Daníel var að keyra á okkur í seinni bylgju. Við vorum alltaf eftir á. Við hefðum þurft að koma okkur betur í vörnina og standa þar. Frammistaðan var ekki góð og við náðum ekki að fylgja því eftir sem við lögðum upp með."

Árni segir tímabil Stjörnunnar ekki endilega vera vonbrigði, þrátt fyrir að falla úr leik í átta liða úrslitum. 

„Það er búið að ganga ótrúlega mikið á. Þetta er búið að vera kaflaskipt hjá okkur. Við komum fullir sjálfstrausts í þennan leik og við ætluðum að gera mikið betur en við gerðum. Þetta small bara ekki og þegar þetta smellur ekki hjá okkur er langt á milli þessara liða," sagði Árni, sem sagðist óviss hvort hann spili á næsta tímabili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert