Brjáluð yfir að hafa ekki náð að vinna

Þórey Rósa Stefánsdóttir var skiljanlega svekkt.
Þórey Rósa Stefánsdóttir var skiljanlega svekkt. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þær voru aðeins grimmari en við í vörninni og fengu meiri markvörslu. Það munaði ekki miklu í dag, en þetta er það litla sem skildi að," sagði svekkt Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is eftir 26:29-tap fyrir Val í öðrum leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta. 

Framkonur voru tveimur mörkum yfir þegar skammt var eftir, en Valur náði að jafna og knýja fram framlengingu. Þar voru Valskonur sterkari. 

„Ég er brjáluð yfir því að þetta fór í framlengingu. Við erum tveimur mörkum yfir og tvær mínútur eftir. Við tökum mjög óskynsamar ákvarðanir í sókninni og þannig fór þetta," sagði Þórey. Fram tapaði fyrsta leiknum með sjö mörkum og spilaði betur í dag. 

„Við spiluðum betri vörn og fengum betri markvörslu. Við vorum beittari í sókninni en við eigum enn þá helling inni. Ég er brjáluð yfir að hafa ekki náð að vinna hérna með geggjaða áhorfendur báðum megin. Nú erum við með bakið upp við vegg og það er að duga eða drepast," sagði Þórey. 

mbl.is