Vá hvað þetta var gaman

Lovísa Thompson skýtur að marki Fram.
Lovísa Thompson skýtur að marki Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er búin á því. Þetta var erfiður leikur, en vá hvað þetta var gaman," sagði þreytt en kát Lovísa Thompson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 29:26-sigur á Fram í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í dag. Valur er nú með 2:0-forskot í einvíginu og getur orðið Íslandsmeistari með sigri í þriðja leik á heimavelli á sunnudaginn kemur. 

„Við vorum klókari. Við hugsuðum í hléinu að við ætluðum að spila betri vörn. Við vorum ekki búnar að sýna okkar rétta andlit í vörninni. Við bættum vörnina og svo fór Íris að verja úr dauðafærum," sagði Lovísa um leikinn. 

Fram var tveimur mörkum yfir þegar skammt var eftir, en Valur náði að jafna á lokasprettinum og tryggja sér framlengingu. Lovísa var róleg í miklum spennuleik, en hún hefur spilað ófáa úrslitaleiki, þrátt fyrir ungan aldur. 

„Ég er búin að spila nokkra úrslitaleiki og maður er kominn í þjálfun. Þú getur ekki hætt og slakað á. Það má ekki neitt nema helda áfram og sjá hvað gerist," sagði Lovísa. Hún er ánægð með að vera að spila úrslitaleiki á ný, en hún féll með Gróttu á síðasta tímabili. 

„Ég er búin að prófa þetta allt saman. Ég féll í fyrra og það er gott að vera komin á þennan stað aftur að fá að vera í svona geggjuðu liði."

Hún á von á svipuðum leik er liðin mætast í þriðja skipti á sunnudag. 

„Það verður alveg eins og þessi leikur. Það má ekkert slaka á. Það þarf að vera með 100 prósent fókus allan tímann. Við vorum á hælunum og þá skora þær auðveld mörk á okkur sem gerðust ekki í fyrsta leiknum. Hausinn okkar var sterkari á lokasprettinum," sagði Lovísa. 

mbl.is