Valur í 2:0 eftir framlengingu

Karen Knútsdóttir úr Fram tekur á Söndru Erlingsdóttur úr Val.
Karen Knútsdóttir úr Fram tekur á Söndru Erlingsdóttur úr Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valskonur eru komnar í 2:0 í einvígi sínu gegn Fram í úrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir 29:26-sigur í æsispennandi framlengdum öðrum leik liðanna í dag. 

Leikurinn byrjaði mjög vel og voru bæði lið að spila hraðan og skemmtilegan sóknarleik. Fram komst í 3:2, snemma leiks, en eftir það voru Valskonur skrefinu á undan út hálfleikinn. Þær náðu mest þriggja marka forskoti 8:5.

Þá tók Stefán Arnarson, þjálfari Fram, leikhlé og eftir það batnaði leikur Fram, sem jafnaði í 11:11. Valur tók þá aftur við sér og náði 13:11 forskoti.

Alina Molkova fékk gott tækifæri til að koma Val í 14:11, en Erla Rós Sigmarsdóttir varði frá henni í góðu færi. Karen Knútsdóttir skoraði hinum megin í blálok hálfleiksins og var staðan í leikhléi því 13:12, Val í vil.

Lovísa Thompson og Díana Dögg Magnúsdóttir spiluðu mjög vel hjá Val í hálfleiknum en besti leikmaður fyrri hálfleiks var Erla Rós Sigmarsdóttir, markmaður Fram. Hún varði 12 skot í hálfleiknum og þar af eitt víti.

Liðin skiptust á að skora framan af í seinni hálfleik og var staðan jöfn, 16:16, þegar hann var hálfnaður. Fram komst svo yfir í fyrsta skipti síðan í stöðunni 3:2 á 46. mínútu, 17:16. Staðan var svo 18:18 þegar tíu mínútur voru til leiksloka. 

Fram komst tveimur mörkum yfir í fyrsta skipti fimm mínútum fyrir leikslok, 21:19. Valskonur gáfust hins vegar ekki upp og náðu að jafna í 21:21 þegar rúm mínúta var til leiksloka. 

Karen Knútsdóttir kom Fram í 22:21 þegar tæp hálf mínúta var til leiksloka með marki úr víti. Sandra Erlingsdóttir náði hins vegar í víti hinum megin í næstu sókn og skoraði úr því sjálf og jafnaði í 22:22 og því varð að framlengja. 

Valskonur voru sterkari í fyrri hálfleik framlengingarinnar og voru tveimur mörkum yfir eftir hana, 26:24. Valskonur skoruðu fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik í framlengingu og náði Fram ekki að jafna eftir það. 

Fram 26:29 Valur opna loka
70. mín. Leik lokið Valskonur eru komnar í 2:0!
mbl.is