Þýðir ekki að væla

Fannar Þór Friðgeirsson á fullri ferð með Eyjamönnum gegn FH …
Fannar Þór Friðgeirsson á fullri ferð með Eyjamönnum gegn FH í átta liða úrslitum ÍSlandsmótsins. mbl.is/Hari

„Það er hundfúlt að tapa þessu því mér fannst við ekkert síðri en Haukarnir í dag,“ sagði Fannar Þór Friðgeirsson, leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 35:31-tap liðsins gegn Haukum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

„Mér fannst við spila vel í leiknum en Grétar tekur stórar vörslur í marki Hauka á mikilvægum augnablikum í leiknum og það réði kannski úrslitum í dag. Í stöðunni 10:10 erum við búnir að fara með einhver fjögur hraðaupphlaup og ef við hefðum nýtt þau betur hefðum við mögulega getað breytt gangi leiksins en það þýðir ekki að væla það núna.“

Eyjamönnum gekk illa að ráða við stórskyttur Hauka í leiknum og vonast Fannar til þess að þær verði ekki á deginum sínum á fimmtudaginn þegar liðin mætast í öðrum leik sínum í einvíginu.

„Mér fannst varnarleikurinn, heilt yfir, góður hjá okkur. Við náðum ágætis leikköflum þar sem við stigum vel á móti skyttunum þeirra og það var fínn taktur í vörninni. Að sama skapi voru þeir að skora mörk lengst utan af velli sem er erftt að eiga við enda eru þeir með hörkuskyttur. Þeir eru eitt af fáum liðum í deildinni sem eru með þannig skyttur og vonandi verða skytturnar þeirra ekki á deginum sínum í Eyjum.“

Þrátt fyrir fjögurra marka tap er Fannar brattur fyrir seinni leikinn í Eyjum.

„Þetta var fyrsti leikur í einvíginu og við töpuðum í dag en það þarf víst að vinna þrjá leiki til þess að komast í úrslit. Við förum brattir heim til Eyja og ætlum okkur sigur í næsta leik,“ sagði Fannar Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert