Stórveldi dæmt niður um deild

Tonje Berglie í leik með Larvik.
Tonje Berglie í leik með Larvik. Ljósmynd/Heimasíða Larvik

Norska handboltaliðið Larvik hefur verið dæmt niður í B-deildina vegna fjárhagserfiðleika. Larvik er búið að vera besta kvennalið Noregs í handbolta síðustu þrjá áratugi og hefur 19 sinnum orðið norskur meistari. 

Larvik varð síðast meistari árið 2017 og var það þrettánda árið í röð sem liðið bar sigur úr býtum. Larvik varð Evrópumeistari árið 2011 og komst einnig í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árin 2013 og 2015. 

Liðið hafnaði í fjórða sæti norsku A-deildarinnar í ár, en spilar þrátt fyrir það í B-deildinni á næstu leiktíð. Larvik fær 14 daga til að kæra úrskurð norska handknattleikssambandsins, en óljóst er hvort félagið muni nýta sér það. 

Í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu félagsins segir Marion Eriksen Wold, stjórnarformaður Larvik, að félagið muni eyða öllum sínum kröftum í að undirbúa eins árs veru í næstefstu deild. 

mbl.is