Arnar Daði tekur við Gróttu

Daði Laxdal og Arnar Daði ásamt stjórnarmönnum Gróttu.
Daði Laxdal og Arnar Daði ásamt stjórnarmönnum Gróttu. Ljósmynd/Grótta

Arnar Daði Arnarsson var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs Gróttu í handknattleik og tekur hann við liðinu af Einari Jónssyni.  Einnig var framlengdur samningur við Daða Laxdal.

Arnar kemur frá Val þar sem hann hefur þjálfað yngri flokka félagsins undanfarin ár auk þess að hafa verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna um tíma og stýrt ungmennaliði félagsins. 

Grótta féll úr efstu deild í vetur en Daði Laxdal hefur ákveðið að framlengja samning sinn og taka slaginn með liðinu í Grill-66 deildinni. 

Í fréttatilkynningu frá Gróttu er eftirfarandi haft eftir Arnari Daða: „Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu verkefni og þakklátur að hafa fengið það tækifæri að taka við Gróttu. Ég tók þá ákvörðun um tvítugt þegar ég þurfti að hætta handknattleiksiðkun vegna þrálátra meiðsla að stefna að því að gerast þjálfari. Ég tel þetta vera gott skref á mínum þjálfaraferli og ég tel mig vera tilbúinn að takast á við þetta spennandi en jafnframt krefjandi verkefni.”

mbl.is