Alfreð stýrði Kiel til sigurs

Alfreð Gíslason stýrði Kiel til sigurs í EHF-bikarnum.
Alfreð Gíslason stýrði Kiel til sigurs í EHF-bikarnum.

Alfreð Gíslason stýrði Kiel til sigurs á Füchse Berlín í úrslitaleik EHF-bikarsins í handbolta á heimavelli Kiel í kvöld. Lokatölur urðu 26:22, en staðan í hálfleik var 16:10. 

Alfreð lætur af störfum hjá Kiel eftir leiktíðina og kveður sem tvöfaldur meistari, hið minnsta, en liðið varð þýskur bikarmeistari á dögunum. Kiel á svo enn möguleika á að verða þýskur meistari. 

Niclas Ekberg var markahæstur hjá Kiel með sjö mörk og Steffen Weinhold skoraði fimm mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Kiel vegna meiðsla. Bjarki Már Elísson var markahæstur hjá Füchse Berlín með sex mörk. 

Porto hafnaði í þriðja sæti eftir 28:26-sigur á Vigni Svavarssyni og félögum í Holstebro. Vignir skoraði tvö mörk fyrir Holstebro, en það dugði ekki til. 

mbl.is